Monday, March 06, 2017

...gönguskíði

Það var gríðarlega falleg fjölskylda sem renndi í hlað, áhaldahúss GKG, seinnipart sunnudags.
Síðdegissólin skein skært og það stirndi á snjóinn, það var engu líkara en að fjölskyldan væri að stíga inn í póstkort svo friðsælt var umhverfið. Fuglarnir dönsuðu í háloftunum og buðu okkur velkomin

Úr bílnum stigu útivistargræjuð hjón uppfull af tilgangi auk tveggja dúðaðra hnoðra þar sem önnur fór strax að keppast við að borða snjó, á meðan hin hvatti hana áfram með tannlausu hjali.
Smám saman fór tilgangur ferðarinnar að taka á sig mynd þar sem ýmis vandaður gönguskíðabúnaður, hokinn af reynslu, tíndist smám saman úr skotti bílsins.

Skömmu síðar var búið að koma hnoðrunum í púlkinn, festa sleðann á húsbóndann og myndavélina á húsfreyjuna.
Fullkomið veður. Fullkomin fjölskylda. Fullkomin útivera.

Ljósmynd í upphafi ferðar skrásetti þennan viðburð, sem var jafn merkilegur og sjálfstæði íslendinga í öðru samhengi.
...
Fyrstu skrefin sem voru örlítið niður í móti reyndust létt. Íkornarnir í púlkinum skríktu báðir af kátínu við hvert skref.  Þetta var allt svo gaman, svo auðvelt, svo fallegt, svo heilbrigt.

Ég hugsaði að svona nákvæmlega hlyti Vilborgu Örnu að hafa liðið þegar hún lagði af stað í sína reisu.
Framundan var lítil brekka upp í móti, eftir að hafa runnið tvisvar til í sporinu sá ég að ég þyrfti að breyta í frjálsa gönguaðferð og skellti í gamla góða vaffið og klifraði upp brekkuna af öryggi. 

Minntist með hlýhug þeirra ára þegar maður klöngraðist í óratíma upp brekkurnar á svigskíðum í vaffinu fræga og renndi sér svo niður á örskotsstund...  Þessir gömlu góðu dagar.
Fyrsta brekkan upp var sigruð og nú hallaði almennilega undan fæti.

Ég var alltof fljótur að ná upp hraða niður brekkuna, í viðbót við laust sporið, dúndruðust púlkstangirnar  fram og ráku mjaðmirnar á mér fram fyrir þyngdarpunkt, þannig að ég leit út eins og dónakall, tilbúinn að fletta klæðum.  Smám saman hægðist þó ferðin og fyrir tilstuðlan vinveittra afla af ókunnu tagi, stóð ég enn í fæturna.

Fjarlægðin í næstu brekku var mjög lítil, mér rétt gafst ráðrúm til að minnast mikilvægi þess að skila þessum fína búnaði heilum og ósködduðum úr láni.

Næsta brekka var brattari. Töluvert brattari.
Ég rann til í hverju vaffi og staulaðist hokinn á stöfunum.  Púlkurinn hnippti hæðnislega í mig í sífellu eins og hann væri að láta mig vita að svona færi maður nú ekki að þessu. 
Á tímapunkti stóð ég grafkyrr í brekkunni eins og alheimurinn hafði ekki ákveðið hvort ég væri á leiðinni upp eða niður brekkuna afturábak.

Hann aumkaði sig þó yfir mig að lokum og hleypti mér upp, froðufellandi og rennsveittum.
Ég horfði niður fjallið sem ég hafði nú rétt í þessu gengið upp og hugsaði til þess að ég hafi nú yfirleitt verið hálfragur að láta mig vaða niður snjóhengjur og yfir stökkbretti á svigskíðum.  Ég renndi mér af stað niður í gljúfrið með rassinn vandlega inn í púlkinn svo ég yrði nú ekki tilkynntur til sóðanefndar. 

Mig var farið að gruna að stelpurnar í púlkinum væru farnar að hlæja að mér.  Það ískraði stöðugt í þeim.  Ég þakkaði þó fyrir það að sporið væri ekki tvöfalt, þannig að ég slyppi við að horfa í augun á glottandi ókunnugum, sem höfðu ekkert betra að gera en að æfa sig á þessi rakettuprik.
Ég veit ekki hvað brekkurnar voru margar í allt, en þær voru allavega... óteljandi.
Síðasti hluti brautarinnar var genginn svo hægt að sú yngri sofnaði.  Göngustíllinn var á pari við ofurölvi stelpu á 15 cm hælum, þar sem einn hæll hafði þegar brotnað undan skónum.

Þegar hringnum var lokað kastaði ég púlkinum af mér og hneig niður á næsta bekk.
Fuglarnir hlógu að mér og sólin bauð góða nótt.
Nokkrir gamlingjar drógu okkur uppi fyrir forvitnissakir og virtust vera að melta það hvort við hefðum stolist út af Kleppi, eða hreinlega stolið göngubúnaðinum frá Vilborgu Örnu. 

Við nánari eftirgrennslan virðist sem GKG hringurinn sé ekki nema 2-3 km sem þýðir að við höfum líklega villst af sporinu og gengið inn og út um alla Heiðmörk í millitíðinni.

Spennuþrunginni tilraun var lokið.

Í dag var svo húsfreyjan send til að skoða almennilegan gönguskíðabúnað sem ekki er ónýtt drasl sem lætur mann líta út eins og viðvaning.

Góðar stundir
Langi Sleði



Tuesday, August 25, 2009

...hárgreiðslustelpan

...Langi Sleði fór í klippingu í dag.
Klipparinn var ung stúlka, sem horfði líklega meira á sjálfa sig í speglinum en hárið á Langa sleða.
Umræðurnar snérust fljótlega upp í spjall um daglegt líf. Eftir að hún hafði tjáð sig um ömurlega stráka á menningarnótt, sem leyfðu henni ekki að fara framfyrir í leigubílaröðinni, þó hún væri á 15 cm hælum, iðaði Langi Sleði í skinninu að vita meira um þessa... þessa gleðipinna geluðu plastkonu!
Hún var nú samt ekki á því að ræða frekar sína einkahagi og fljótlega barst talið að kreppunni.

Hún: Já, þessir útrásarkvótar eru náttlega ömurlega ógisslegir.
Langi Sleði: Greifar.
Hún: Eru til greifar á Íslandi?
Langi Sleði: Nei, þeir eru kallaðir "útrásargreifar", ekki útrásarkvótar?
Hún: wotever.
Langi Sleði: Annars finnast mér íslendingar nú vera afar duglegir að barma sér.
Hún: Ha!
Langi Sleði:(örlítið hærra) Duglegir að BARMA sér!
Hún: Erum við að tala um brjóst?
Langi Sleði: Nei, íslendingar hafa verið duglegir að kvarta í kreppunni!
Hún: Já.
Langi Sleði hafði hemil á sér að fara að tala fornt mál við stúlkuna...
... það verður gert næst og krefst undirbúnings.
Gæti verið að Langi Sleði þurfi að fjárfesta í litun ef hann nær að safna miklu efni.

Góðar stundir
Langi Sleði

Saturday, May 23, 2009

...bankamannadrama

...hitti háttsetta bankamenn nú um daginn. Það er frekar óþægileg reynsla, þegar menn með fyrrum íturvaxna sjálfsímynd, reyna að mæta manni með sama yfirlæti og fyrir hrun.
Langi Sleði horfði til baka með stingandi augnaráði og reyndi að segja; "Ég veit að þið eruð hræddir um óhreina mjölið í pokahorninu ykkar"!
Þess vegna vil ég segja ykkur frá því, hvert hlutverk banka er!
Hlutverk banka er að verja óskiptum höfuðstóli sínum til að lána fólkinu og atvinnulífinu í landinu. Sjá afar áhugaverða þingsályktunartillögu hér.
Ó.
Þannig að bankarnir voru í raun ekki bankar heldur, breyttu þeir sér í fjárfestingafélög... með peningana þína!...
Bigtime.
Kenningin mín er þannig að þeir hafi nú séð bankahrunið fyrir. Ekki vikum, ekki mánuðum heldur líklega allt að árum áður en það gerðist.
Það var allt gert til að fá meira fjármagn inn í bankana.
Nú vil ég segja ykkur frá minni kenningu hvað varðar evrulánin ...lömbin mín.
Þetta var náttúrulega slátrun... þið sáuð bara ekki sláturhúsamerkið.

Maður tekur bankalán í evrum að upphæð 10 Mkr á genginu 1 EUR= 85 ISK
Bankinn veit að evran er að fara að hækka. Greiðir upp lánið þitt og bíður átekta.
Lánið er til 10 ára og þú færð það á súpervöxtum 5%.
Heildarvaxtakostnaður verður rétt rúmlega 2,7 milljónir sem þú þarft að borga.

Nú hækkar evran í 170 kr og þá ert þú kominn í annan bransa (tímabundið)
Allt í einu skuldar þú 20 milljónir + vexti sem verða rúmar 5,5 milljónir.

Segjum að bankinn hafi tekið þennan séns. Þá er hann að græða á láninu þínu.
25,5-10= 15,5 milljónir. Það er aðeins betri ávöxtun en bara þessar 2,7 milljónir sem stóðu til boða fyrst.

Myndi þetta vera löglegt?...
Líklega já...
Bankinn þinn var nefnilega ekki að hugsa um hag þinn, heldur var þetta fjárfestingabanki í áhættufjárfestingum... og tryggingafélagið líka...Já og lífeyrissjóðurinn.

hahhahahhhahahhah ...við erum svo %&$#

Góðar stundir
Langi Sleði

Tuesday, November 11, 2008

...illu er best af lokið

...og nei... ég er ekki að tala um afar lélegar heimtur lesenda af bloggi mínu síðustu mánuði.
Ég veð í þeirri villu að það sé lesendum nauðsynlegt að vita hvað Langi Sleði hefur um málið að segja.
Til að gera þetta verkfræðingslega og skýrt í sömu mund ætla ég að reyna að skipta þessu upp í nokkra hluta.
1. Fólk er mjög reitt vegna tveggja hluta:
a) Bankarnir og vitleysisgangur stjórnvalda er búið að kosta íslensku þjóðina gríðarlega mikla peninga.
b) Innistæður einstaklinga hafa rýrnað og jafnvel horfið (þá er ég bæði að tala um hlutabréf og peninga).
Ástandið er ekki flóknara en þetta. Við megum alveg vera reið það er okkar réttur.

2. Eftirfarandi spurningum þarf að svara til að byrja með:
a) Af hverju þarf "ég" sem neytandi að borga skuldir bankanna?
b) Hvert fóru allir peningarnir sem bankarnir "sögðust" eiga?
c) Af hverju fékk þetta að gerast?
d) Hvað gerist núna?
e) Hvað gerist næst?
e) Hvað gerist svo?
f) Hverskonar banki er Icesave ef allir peningar þar eru horfnir?

Í raun og veru er þetta bara ein spurning og því svarið bara eitt. Við þurfum peninga og alveg helling af þeim.
Hins vegar eru mörg undirsvör og kröfur á þær því nauðsynlegar. Þar má nefna spillingamál, ábyrgðir o.s.frv. Geymum það til síðari tíma.

Kaffipása hjá þér!

4. Hvaða peninga og hvernig fáum við þá er viðfangsefnið!
Svarið her er í raun og veru mjög fyndið. Það vita ALLIR einstaklingar að skuldirnar eigi að vera í sömu mynt og launin eru. (dæmi: Innlend versus erlend bílalán). Sérstaklega þegar gengisáhættan er orðin svona mikil.

Og af hverju er gengisáhættan orðin mikil?
Það er öllum sama um íslensku krónuna. Hún var bara vinsæl á meðan erlendir verslunarmenn gátu gamblað með hana og grætt á henni. Útlendingar keyptu jöklabréf hægri vinstri. Auk þess var veltan á hlutabréfamarkaðnum, að megninu til íslensk innherjaviðskipti sem sneru mest að flutningi frá a til b frá b til c frá c til d og frá d til a.
Bankainnherjaviðskiptin voru hins vegar skrefstyttri.... svona eins og dvergar eru almennt.
Þess vegna hélst gengið hátt.
Það er vegna þess að við erum skítasker norður í hafi og höfum rænt og ruplað frá upphafi vega!
(t.d. hefur ekki enn fæðst fallegur íri, frá því að við stálum öllum fegurðargenunum þeirra og það er orðin rúmlega aldarkreppa).

Allavegana... vegna þess höfuðlausa hers sem hér hefur óstjórnað (og ég er ekki að segja að ég vilji nýja stjórn þvi ég sé fyrir mér í raun aðeins einn stjórnmálamann nú í dag sem enn heldur einhverri sjálfsvirðingu og það er enginn stjórnmálamaður sem hefur getuna til þess að taka við).

Allavega sagan segir að okkur vanti 6 milljarða evra til að breyta í krónur og á að greiðast tiltölulega fljótt (reyndar þá fáum við lán einhvers staðar annars staðar frá).
Hins vegar er ÖLLUM heiminum sama um krónuna og því og þess vegna megum við ekki halda í þennan gjaldmiðil.
Ástæðan er sú að eftir tvö ár gæti staðan hér verið mun verri en nú.
6 milljarðar evra gætu verið orðin 20 milljarðar evra... eða jafnvel enn hærri í íslenskri mynt.

Já við þurfum að taka upp evru... því miður...þó ekki væri nema að tryggja að stórt lán yrði gígantískt.
Því fyrr sem menn átta sig á því, því betra...
Einhliða upptaka evru yrði mjög auðveld. Ég myndi t.d. treysta mér til að nota aðeins greiðslukort ... fyrsta árið.
Ég ætla ekki í smáatriðin hér enda ekki partur af þessum ritlingi... og þetta líklega bæði leiðinlegt og illa skrifað.

góðar stundir
Langi Sleði

Friday, August 22, 2008

...stjáklað skælandi í skálkaskjóli skrumsins

...æ.
Elísabet er þessa dagana að auglýsa "nútíma bílalán".
Þar sem það þýðir eitthvað gott en órætt þótti Langa Sleða forvitnilegt að fá þýðingu á "nútíma". Á mannamáli þýðir það að þeir eru hættir að tryggja litla kraftmikla bíla, þar sem slysatíðnin er hæst. Langi Sleði veit ekkert hvort að þetta sé löglegt, þar sem hér er um hreina og klára mismunun að ræða. Langa Sleða þótti það frekar broslegt, þar sem Austin Mini er andlit fyrirtækisins og samkvæmt nýju reglunum ætti ekki að vera hægt að tryggja svoleiðis bíla hjá fyrirtækinu.
Það er svona eins og það væri bannað að kaupa hamborgara á hamborgarabúllunni.
...ææ
Það er makalaust hvað þessir stjórnmálamenn eru tilbúnir að baða sig í glæsilegu gengi handboltastrákanna okkar. Ég gæti ælt. Eins gæti ég ælt á borgarmálin en ég hef mig ekki í að tala um þau hér.
Ég er yfir það hafinn að eyða tímanum eða yfir höfuð að yrða á svona fólk.
Einhvern veginn verður að búa til þverpólitíska samstöðu til að losna við þessa ræfla. Þetta eru eins og rottur að yfirgefa brennandi hús. Allar eru þær með eldspýtur á sér og allar benda þær á hvora aðra. Ein rotta var látin leika lystir sínar með eldspýtur og er með skaðbrenndan feld en það gerði víst lítið til þar sem kleprarnir voru þegar komnir á. Krullaða rottan sem opnaði eldspýtustokkinn galar nú: "ég sagði ykkur að opna ekki eldspýtustokkinn". Það er að vísu bara ein rotta sem misskildi þetta allt saman og hélt að hún væri að yfirgefa sökkvandi skip og stökk því fyrir borð í Edinborg og sagðist ætla að fara að "læra". Spurningin er hvort þar hafi komið nafn á fyrst bindi ævisögunnar hans "Af mistökum!".

Góðar stundir
Langi Sleði.

Tuesday, August 19, 2008

...margverkamaður og kraftaverkamaður

...hugsaði Langi Sleði þegar hann hlustaði á nýjustu plötu Megasar.
Þegar hugurinn reikaði um öngstræti gamalla texta og laga í fylgd Megasar og senuþjófanna mætti plötudómurinn óumbeðinn í huga Langa Sleða.

Stundum þegar Megas yrkir ekki þá hefur hann heldur ekki getað setið á strák sínum og fært textann í klúrt form.
Stundum hins vegar gerir hann þetta allt þrennt í einu.
Það gerir hann að margverkamanni (múltítaskara).

Það að skila undantekningalaust góðum plötum til almennings gerir hann að kraftaverkamanni (m.v. að hinn almenni poppari sé skilgreindur sem venjuleg manneskja sem er í raun mjög hæpin fullyrðing).
Byggt á þessari hæpnu fullyrðingu og hetjuformi nútímans, má segja að Megas sé Batman okkar íslendinga.

Góðar stundir
Langi Sleði

Wednesday, July 23, 2008

...brumbolt

...Langi Sleði var staddur á einum virtasta fundarstað Reykjavíkurborgar, nánar til tekið á Kaffivagninum.
Þar sat Langi Sleði ásamt heiðursmanni yfir rjúkandi kaffibolla og elegant smurbrauði og ræddum málefni líðandi stundar, líkt og trillukarlarnir fyrr um morguninn.
Staðurinn ber þess glöggt merki að háglans sjómennskunnar er aðeins minning veðurbarðra ellilífeyrisþega, sem reyrðu seglstakka og fóru í lopavettlinga með tveimur þumlum. Þeir allra elstu vita meira að segja enn af hverju þumlarnir voru tveir.
Kaffistamparnir, þótt hreinir séu, hverfa reglulega inn í ægilega hramma þessara hetja sem buðu veðuröflunum byrginn til að sjá sér og sínum farborða.
Uppnuminn og andaktugur yfir höfgi þessa staðar, rann manni skylda til blóðsins að tala með djúpum rómi og láta karlmannlega fram úr hófi.
Strákpjakkur sem hefði varla getað verið léttadrengur á áttæringi, nálgaðist Langa-Sleða.
pjakkur: "Halló, ertu búinn með moggann?"
pjakkur: "Er þetta mogginn í dag?"
Þá drundi í Langa Sleða: "Já og hér eru meira að segja tvö eintök...og þú skalt taka þau bæði... svona ef annað bilar"
Pjakkurinn rak upp stór augu og spurði: "hvernig ætti blaðið að bila?"
Langi Sleði (með dimmrödduðum þjósti eins og bjánaleg spurning léttadrengs átti skilið að fá): "Ég veit það ekki, ég hef aldrei lent í því að blað bili, en það sem hefur aldrei komið fyrir áður, getur alltaf komið fyrir aftur! "
Pjakkurinn var nú kominn með augu á stærð við undirskálar og
bakkaði varfærnislega út úr samtalinu með því að halda báðum eintökum moggans þétt upp að hárlausu brjósti sér.
Hann kom sér fyrir í hinum enda salarins en sóttist lesturinn seint enda hafði hann annað augað enn á Langa Sleða.
Einum beitarbala síðar, kvöddust Langi Sleði og heiðursmaðurinn með hrammahandarbandi og héldu í átt að sitt hvorum borðanum.
Léttadrengurinn hafði fengið mjólk og kleinu og var að skoða skrípóið í blaðinu.
Langi Sleði kvaddi hann með því að lyfta höfuðfatinu til hálfs enda pjakkurinn ekki hálfdrættingur og líklega bara rétt rúmlega amlóði.

Góðar stundir
Langi Sleði

free web hit counter